FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Heiðursfélagi FÍLA, Einar E. Sæmundsen er látinn

Heiðursfélagi FÍLA, Einar E. Sæmundsen lést þann 15. september sl. á líknardeild Landspítalans í Kópavogi eftir bráð veikindi. Landslagsarkitektar syrgja góðan félaga, margs er að minnast frá störfum hans fyrir félagið á ólíkum vettvangi. Öll þau sem kynntust landslagsarkitektinum Einari E. urðu þess fljótt áskynja að þar var maður sem unni fagi sínu heitt og vildi framgang þess sem mestan.

Útför fór fram frá Digraneskirkju miðvikudaginn 27. september klukkan 15.00. Hægt er að nálgast upptöku af athöfninni á eftirfarandi slóð: http://beint.is/streymi/einarsaemundsen


Minningarorð um Einar E. Sæmundsen

Landslagsarkitektar syrgja þessi dægrin fallinn félaga, okkar kæra Einar E. Sæmundsen sem lést 15. þessa mánaðar eftir stutt en erfið veikindi.

Einar nam sín fræði í landslagsarkitektúr við Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn og útskrifaðist hann árið 1972. Starfsferill Einars innan fagsins voru 5 ár á teiknistofu Reynis Vilhjálmssonar eftir heimkomu 1972, rekstur eigin teiknistofu 1977-1987, garðyrkjustjóri Kópavogs um 6 ára skeið og að lokum teiknistofan Landmótun sf. sem hann stofnaði árið 1994 ásamt kollegum sínum Gísla Gíslasyni og Yngva Þór Loftssyni. Stofan er enn í fullum rekstri í höndum nýrra eigenda. Áður en Einar hóf nám í landslagsarkitektúr hafði hann lokið námi í KÍ árið 1961 og í garðyrkjufræðum í Danmörku og Noregi 1961-1964. 

Einar var einn 5 stofnfélaga Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) árið 1978 og frá upphafi var hannötull í starfi fyrir félagið. Hann átti frumkvæði að mörgum málum, sat í ótal nefndum og stóð að undirbúningi ráðstefna þar sem lögð var áhersla á fagið og þátttöku landslagsarkitekta. Hann var einnig mjög virkur í erlendu samstarfi og kynnti FÍLA og íslenskan landslagsarkitektúr á þeim vettvangi. Hann var tvívegis formaður FÍLA, árin 1980-82 og 2005-2008 og á aðalfundi félagins árið 2015 hlaut hann nafnbótina heiðursfélagi FÍLA. Einar hafði m.a. frumkvæði að láta þýða Evrópska landslagssamninginn (ELC) yfir á íslensku og vann ötullega að því að fá samninginn undirritaðan hér á Íslandi. 

Garðsaga Íslands var Einari mjög hugleikin. Árið 2018 leit dagsins ljós bókin Að búa til ofurlítinn skemmtigarð og þá samglöddumst við með félaga vorum, enda er bókin, sem telur tæpar 400 síður, afrakstur margra ára vinnu við heimildaöflun um garðsöguna hérlendis. Einar leiddi vinnu garðsöguhóps FÍLA við gerð og útgáfu greinagerðar um Garða – lifandi minjar í samstarfi við Minjastofnun, útgefinn 2019.

Öll þau sem kynntust landslagsarkitektinum Einari E. urðu þess fljótt áskynja að þar var maður sem unni fagi sínu heitt og vildi framgang þess sem mestan. Kennarinn blundaði ávallt í Einari og hann kom t.d. að kennslu á umhverfisskipulagsbraut við LbhÍ á Hvanneyri þar sem hann gerði sitt að fræða framtíðarlandslagsarkitekta og vísa þeim réttan veg í landslaginu.

FÍLA-félagar lúta höfði í dag og minnast vinar sem gott var að vera í návistum við á gleðistund og líka þegar þurfti að ræða erfið mál í félaginu, t.d. þegar þurfti að bretta upp ermar og fá löggildingu á starfsheitinu landslagsarkitekt, þar barðist Einar þar til árangri var náð og við þökkum fyrir. Hann var með duglegri félagsmönnum að mæta á viðburði félagsins og hvetja kollega til góðra verka, félaginu og fagi til heilla. Fyrir það þökkum við af djúpri virðingu.

Kæru Helgu, Þorvaldi, Signýju, Sólrúnu og félaga okkar Einari Ásgeiri vottum við dýpstu samúð, megi ljúfar minningar um góðan mann sefa sárustu sorgina.

f.h. FÍLA

Ómar Ingþórsson formaður