FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Amælisbarn dagsins, Svanhildur Gunnlaugsdóttir

Sjáið Svanhildi. Hún á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.

Svanhildur útskrifaðist úr Den kongelige veterinær- og landbohøjskole (KVL) í Kaupmannahöfn, árið 1999 sem nú er hluti af KU. Svanhildur flutti heim frá Danmörku árið 2002 og hefur starfað hjá Landform á Selfossi síðan þá. Helstu verkefni eru Íþróttavallarsvæðið á Selfossi, Stækkun Selfosskirkjugarðs, lóð Tryggvaskála á Selfossi, Aðalskipulag Hveragerðis, deiliskipulag Hagalands á Selfossi, lóð Urriðaholtsskóla í Garðabæ, Kjóavellir í Kópavogi/Garðabæ og sitthvað fleira.

Vinna við deiliskipulag nokkurra fjallaskála á Kili og Laugaveginum fannst Svanhildi býsna skemmtileg, með tilheyrandi vettvangsferðum upp á hálendið.

Í tilefni dagsins var Svanhildur spurð spjörunum úr.

  • Áttu þér uppáhalds tré? Uppáhalds trjátegundin er beyki, en ég fékk ást á því þegar ég bjó í Danmörku. Það hefur svo mjúkt, létt og ljóst lauf, trjábolirnir eru skemmtilega sléttir en minna samt á fílsfætur og beyki er fallegt hvort heldur er sem stakt tré eða sem skógur. Af íslenskum trjám hef ég fengið meiri og meiri mætur á Selju, held hún sé í uppáhaldi eins og stendur. Uppáhalds trjá-einstaklingarnir eru samt nokkrar þallir í Trjásafninu á Hallormsstað, þær eru ævintýralegar.
  • Uppáhalds bíómynd? Svartur köttur, hvítur köttur í leikstjórn Emir Kusturica. Alveg kostuleg mynd, eiginlega farsi, sem sýnir mannlega hegðun á svo grátbroslegan hátt.
  • Falin perla hönnuð af landslagarkitekt, veist þú um svoleiðis? Man ekki eftir neinni falinni perlu í svipinn, en verð alltaf glöð þegar ég keyri heim að Skriðuklaustri í Fljótsdal og fallegri lóðarhönnuninni þar.
  • Hver er fallegasti staður á landinu? Erfið spurning og erfitt að gera upp á milli fallegra staða. Sem krakki fannst mér tjörnin í Haga í Aðaldal, þar sem ég var í sveit, vera fallegasti staður á landinu. Höfði í Mývatnssveit tók síðan við þegar ég vann á hótelinu í Reynihlíð eitt sumar sem unglingur. Eftir gönguferð um síðustu helgi upp á Hvannadalshnjúk í blíðskaparveðri, þá hefur sú mynd fest sig á nethimnunni og í sessi sem fallegasti staður á landinu.
  • Hvert er uppáhalds útivistarsvæðið þitt? Hallormsstaðaskógur. Þar eru margar og fjölbreyttar gönguleiðir meðfram ám og fossum, Lagarfljóti og Trjásafninu.
  • Uppáhalds tónlistamaður? Monica Zetterlund hefur lengi verið í uppáhaldi, sem og landi hennar Jan Johannsson. Bæði framúrskarandi jazzistar.
  • Viltu deila undarlegri staðreynd um þig? Sennilega er ég óskaplega venjuleg, en kannski flokkast það sem undarleg staðreynd, svona í ljósi starfsvettvangsins, að ég hef litlar mætur á sumarblómum, sem venjan er að skreyta bæjarfélögin með í stórum breiðum. Finnst þau þó þolanleg í litlum pottum upp við hús!

 

Þetta var Svanhildur. Hún á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta. Verið eins og Svanhildur.