FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Afmælisbarn dagsins, Oddur Hermannsson

Sjáið Odd.  Hann á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.

Oddur útskrifaðist vorið 1986 frá landbúnaðarháskólanum á Ási í Noregi. Oddur  er alin upp sem gróðurgengill í Gróðrarstöðinni Mörk og síðar í 6 ár hjá Reyni Vilhjálmssyni eftir Ás. Var við kennslu í 3 ár sem fagstjóri skrúðgarðyrkju á Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Hveragerði og frá 1994 starfað hjá Landform á Selfossi. Helstu verkefni tengjast aðal- og deiliskipulagi auk hönnunar útisvæða fyrir menn og dýr út um allar koppagrundir.   

Skemmtilegustu verkefnin finnst honum þau inni í bæjum, uppi á fjöllum, úti í vatni, verkefni sem tengjast ótroðnum slóðum og maður þarf að hafa sig allan við í að finna bestu leiðir við hönnun.

Í tilefni dagsins var Oddur spurður spjörunum úr.

  • Uppáhalds tréð?  Hjartalind (Tilia cordata), átti eitt sinn skemmtilega göngu undir Linditrjám í Berlín og hreifst svo af  trénu að nú vex eitt fyrir utan svefnherbergisglugga hjá mér og er að verða 5m hátt með nærri jafnbreiða kórónu. Nýt þess að hlusta á þytinn og sjá ljósgræna litinn glampa gegnum silkiþunnt laufverkið. Prýðistré.
  • Uppáhalds bíómynd? Börn náttúrunnar frá 1991 eftir Friðrik Þór Friðriksson.
  • Falin perla hönnuð af landslagarkitekt, veist þú um svoleiðis? Ef skoðuð er saga og þróun Laugardalsins í Reykjavík má sjá fingraför Reynis  Vilhjálmssonar á nær öllum sviðum. Ég velti oft fyrir mér hvort menn geri sér almennt grein fyrir þeim áherslum sem hann lagði í skipulagi hans og þeim gæðum sem dalurinn hefur, allt frá Fjölskyldu- og Húsdýragarði að Sundlaugavegi.   
  • Hvert er uppáhalds útivistarsvæðið þitt?  Elliðaárdalurinn, leiksvæði í æsku og fylgdist með fyrstu gróðursetningum þar. Rata þó varla lengur um skóginn í dag en dalurinn er skólabókardæmi um hve skjótt megi skapa skóg í borgarlandslagi og á Reynir þar líka drjúgt starf í skipulagi.
  • Fallegasti staður á landinu? Aðalvík á Hornströndum.
  • Uppáhalds tónlistamaður? Sigurður Halldór Guðmundsson
  • Viltu deila undarlegri staðreynd um þig? Já, ég hafði áráttu að vera síteiknandi sem krakki, teikna skip, trillur, fjöll, fasöður húsa og hússtrompa. Í sveitinni dró ég upp skipulagsuppdrátt af 4ra eininga fjósi (12 ára) þar sem ég merkti inn nöfn allra kúnna, fóðurganga, bása og flóra, allt í réttum hlutföllum. Ég á teikninguna ennþá en í dag hafa viðfangsefnin færst úr fjósinu yfir í nokkuð fjölbreyttari verkefni. En prinsippið er nokk það sama.

Þetta var Oddur. Hann á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.  Verið eins og Oddur.