FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Afmælisbarn dagsins, Fríða Björg Eðvarðsdóttir

Sjáið Fríðu Björgu.  Hún á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.

Fríða Björg útskrifaðist frá Guelph Ontario í Kanada árið 1984. Fríða Björg vinnur á VSÓ Ráðgjöf  og hefur verið mikið í verkefnum fyrir VSÓ Ráðgjöf í Noregi og þá eru það oft félags- og þjónustustofnanir s.s  skólar, leikskólar og sjúkrahús og heimili aldraðra.  Og svo eru líka skipulagsverkefni og ráðgjöf vegna vega og stígagerðar sem dúkka upp á borðið.

Í tilefni dagsins var Fríða Björg spurð spjörunum úr.

  • Skemmtilegustu verkefnin?  Það eru verkefnin sem eru unnin í góðum hóp og með skapandi fólki.
  • Uppáhalds tréð og afhverju?  Blóðbeikið í garðinum mínum. Þrífst svo vel og liturinn er alveg ótrúlegur og það heldur laufi allann veturinn. Það minnir mig á mikilvægi þess að hugsa til framtíðar- lítið tré verður oft stórt.
  • Uppáhalds bíómynd?  Núna er það Kona fer í stríð. Þvílíkt listaverk, full af baráttu og góðum húmor. Stella í orlofi hefur  alltaf verið  í uppáhaldi. Mamma mín var þar í  auka hlutverki og ég á vínbakkann og fleira props sem hún var með og  notað var í myndinni. Önnur gömul er Mitt liv som hund –  frá 1985. Það voru mörg gullkorn sem ég hugsa enn til. Er annars lítil bíómanneskja og sofna yfirleitt þegar ég ætla að horfa á sjónvarp.
  • Falin perla hönnuð af landslagsarkitekt, veist þú um svoleiðis? Ég er mjög ánægð með lóðina hjá Smith og Norland í Nóatúni eftir Pétur Jónsson. Ég geng eða hjóla daglega í gegnum hana og mér finnst efnisnotkun góð og plöntuval mjög fallegt. Það er líka svo fín tjörnin með listaverkinu eftir Magnús Tómasson. Mér finnst þessi lóð hafa elst mjög vel.
  • Hvert er uppáhalds útivistarsvæðið þitt? Mér finnst gaman þegar ég er á Mæri að fara í Þrastarskóg og ganga stígana sem við Yngvi Þór skipulögðum á sínum tíma. Það er líka alltaf gott veður þar.
  • Fallegasti staður á landinu? Stafafellsfjöll í Lóni
  • Uppáhalds tónlistarmaður? Björk.

 

Þetta var Fríða Björg. Hún á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.  Sem lítill krakki spurði Fríða Björg alltaf fyrst „má ég koma með“ – áður en hún spurði „hvert ertu að fara“. Hún er svona enn. Það er ferðalagið sem er skemmtilegt en ekki bara áfangastaðurinn. Verið eins og Fríða Björg.