FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Afmælisbarn dagsins, Guðmundur Rafn Sigurðsson

Sjáið Guðmund Rafn. Hann á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.

Guðmundur Rafn útskrifaðist frá Norges landbrukshögskole NLH árið 1982. Guðmundur Rafn vinnur á Biskupsstofu. Helstu verkefni hans þar eru að sjá um eftirlit kirkjugarða og grafreita, samskipti við sóknarnefndir, presta, prófasta, almenning og stofnanir. Hafa milligöngu um að vinna mælingar, uppdrætti og verkáætlanir vegna stækkunar og/eða lagfæringa og umhirðu kirkjugarða. Aðstoða við ráðningu manna í mismunandi verkþætti og hafa eftirlit með framkvæmdum. Mæla með og halda utan um árlegar styrkveitingar úr kirkjugarðasjóði.

Í tilefni dagsins var Guðmundur Rafn spurður spjörunum úr.

  • Skemmtilegustu verkefnin? Sem betur fer eru fáir dagar eins í vinnunni og flest verkefni skemmtileg. Ánægjulegast held ég samt að séu samskiptin við hönnuði, kirkjugarðstjórnir og verktaka og um leið sjá hugmyndir um endurbætur á kirkjugörðum og umhverfi þeirra ,,lifna við“ og verða að raunveruleika.
  • Uppáhalds tréð? Dettur í hug magnolíutré. Ástæðan fyrir því er, að ég dvaldi um tíma í Kaliforníu bjó rétt við garð sem var fullur af magnolíutrjám og fór þangað oft á dag m.a. til að fylgjast með þeim blómstra og finna lyktina.
  • Falin perla hönnuð af landslagsarkitekt, veist þú um svoleiðis? Er svo mikil ,,fagidiot“ að ég held ég verði að segja Hólavallakirkjugarður þó hann sé ekki nema að hluta til hannaður af landslagsarkitekt.
  • Hvert er uppáhalds útivistarsvæðið þitt? Svæði út við Gróttu á Seltjarnarnesi. Hef gengið eða hjólað þarna nær daglega undanfarin ár og upplifað breytileika þess og mismunandi mikið logn !.
  • Fallegasti staður á landinu? Það eru svo margir fallegir staðir hér á landi. Get nefnt Rauðasand á Barðaströnd. Man eftir að hafa orðið fyrir hálfgerðri hugljómun þegar ég kom þangað í fyrsta sinn sem var að kvöldi til og sólin lýsti upp sandinn.
  • Uppáhalds tónlistarmaður? Starfs míns vegna er ég mikið úti að aka og hlusta mikið á tónlist á ferðum mínum um landið. Á marga uppáhalds tónlistamenn en get nefnt t.d. Neil Young og Sufjan Stevens.
  • Viltu deila undarlegri staðreynd um þig? Ólst upp með fimm bræðrum en engri systur og var því seinni en ella til að tileinka mér jafnrétti kynjanna.

 

Þetta var Guðmundur Rafn. Hann á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta og uppáhalds bíómyndin hans er One Flew Over the Cuckoo‘s Nest (Gaukshreiðrið).  Verið eins og Guðmundur Rafn.