FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Vinningstillaga – Bjólfur

Þann 23. nóvember 2021 voru birt úrslit í samkeppni um skipulag og hönnun áfangastaðar við snjóflóðagarðana í Bjólfi á Seyðisfirði. Markmið samkeppninnar var að skapa aðdráttarafl á svæði sem gæti orðið einn af fjölsóttustu útsýnisstöðum Austurlands, stuðla að einstakri upplifun og sterku kennileiti sem og að bæta aðgengi og öryggi ferðamanna.

Vinningstillagan ber heitið Baugur Bjólfs og var unnin í þverfaglegu samstarfi en aðalhöfundar tillögunnar eru þær Ástríður Birna Árnadóttir og Stefanía Helga Pálmarsdóttir frá Arkibygg Arkitektum í samvinnu við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá ESJA ARCHITECTURE og Arnar Björn Björnsson frá EXA NORDIC sem sá um burðarvirkjahönnun.

Í áliti dómnefndar kemur fram að einhugur hafi verið um val á vinningstillögu og hún hafi uppfyllt best þau skilyrði sem sett voru fram í keppnislýsingu, sé heildstæð og vel framsett. Tillagan er áhugaverð og með ýmsar áhugaverðar skírskotanir í menningu, sögu og náttúru staðarins. Baugur Bjólfs er hringlaga útsýnispallur sem nær út fyrir fjallsbrún og býður þannig upp á einstakt útsýni, umfram það sem sjá má að fjallsbrúninni, bæði inn og út fjörðinn. Í niðurstöðu dómnefndar segir m.a. Einföld, sérstæð og sterk byggingarlist hér á ferð sem dómnefnd telur að geti haft mjög mikið aðdráttarafl og hefur alla burði til þess að bjóða upp á einstaka upplifun.

Samkeppnin var haldin á vegum Múlaþings í samvinnu við FÍLA og var hún unnin samkvæmt keppnisreglum félagsins. Sveitarfélagið fékk styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til verkefnisins og var fjórum teymum boðið að skila inn tillögu að loknu forvali, en 11 gildar umsóknir bárust um þátttöku í forvalinu.

Dómnefnd var skipuð Birni Ingimarssyni bæjarstjóra Múlaþings, Maríu Hjálmarsdóttur fyrir hönd Áfangastaðaáætlunar Austurlands og Oddi Hermannssyni landslagsarkitekt og fulltrúa FÍLA. Ritari dómnefndar og verkefnastjóri samkeppninnar var Jónína Brá Árnadóttir og trúnaðarmaður dómnefndar var Ólafur Melsted, FÍLA.

Fram kemur í áliti dómnefndar að samkeppnin hafi tekist vel og að allar tillögurnar hafi verið í samræmi við keppnislýsingu og lausn þeirra og framsetning hafi verið metnaðarfull og áhugaverð. Allar tillögur bárust nafnlaust til dómnefndar og nöfn ekki birt fyrr en niðurstaða dómnefndar lá fyrir. Áætlað er að sækja um frekari styrki til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til áframhaldandi hönnunar og framkvæmda á verkinu.

FÍLA óskar vinningshöfum innilega til hamingju og öðrum þátttakendum fyrir sitt framlag. Einnig þakkar FÍLA dómnefndarfulltrúum, ritara og trúnaðarmanni fyrir vel unnin störf.

Álit dómnefndar er aftast í fréttinni.

Sjá nánar á heimasíðu Múlaþings https://www.mulathing.is/is/frettir/baugur-bjolfs-vinningstillaga-i-samkeppni-um-skipulag-og-honnun-afangastadar-1