FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

VILTU TAKA TORG Í FÓSTUR?

Óskað er eftir hugmyndaríkum og áhugasömum einstaklingum eða hópum til að taka almenningssvæði í borginni í fóstur. Verkefnið felst í að endurskilgreina svæði sem ekki eru fastmótuð til framtíðar og auðga mannlíf borgarinnar.

Verkefnin geta verið af ýmsum toga; markaðir, leikir, listviðburðir, innsetningar, endurhönnun svæða eða hvað eina sem styrkir og bætir mannlíf á svæðinu. Hóparnir sem taka að sér verkefni finna tímabundnar og skemmtilegar lausnir á sínu svæði og kanna möguleika þess með tilraunum. Um leið er reynt að vekja íbúa og aðra hagsmunaaðila til umhugsunar um sitt nánasta umhverfi og virkja þá til að taka þátt í að þróa svæðin til framtíðar. Að jafnaði stendur verkefnið yfir frá maí til september ár hvert.

Eftirfarandi svæði er hægt er að sækja um:

  • Bernhöftstorfa
  • Fógetagarður
  • Vitatorg
  • Frakklandsgarður (við Frakkastíg)
  • Göngugötusvæði í miðborginni

Umsækjendur eru einnig hvattir til þess að sækja um önnur svæði sem þeir hafa áhuga á að vinna með í verkefnum sínum. Athygli er vakin á að í einhverjum tilfellum getur hópum verið falið að vinna með önnur torg en þeir sóttu um.

Umsóknarfrestur er til 31. mars og skal senda umsóknir á netfangið olafur.ingibergsson@reykjavik.is og merkja með efnislínunni (subject) „Umsókn um biðsvæði“. Umsóknir þurfa að vera í fylgiskjali með póstinum og koma skal fram ítarleg lýsing á verkefninu og hvaða svæði sótt er um. Einnig þarf að fylgja ferilskrá og/eða kynnisbréf allra umsækjenda þar sem fram kemur fullt nafn, kennitala, netfang og símanúmer.

Valið verður úr umsóknum fyrir 14. apríl og gert er ráð fyrir að verkefnin verði tilbúin fyrir 1. júní.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar eru ljósmyndir af verkefnum > http://reykjavik.is/frettir/viltu-taka-torg-i-fostur

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ingibergsson verkefnisstjóri í síma 8693346