FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Landslag ehf fékk Rosa Barba verðlaunin fyrir útfærslu tröppustígsins á Saxhól

Landslag ehf fékk Rosa Barba verðlaunin. Hönnun og útfærsla tröppustígsins á Saxhól sópar til sín viðurkenningum.

Í haust hlaut Teiknistofan Landslag ehf ein virtustu verðlaun sem veitt eru í landslagsarkitektúr, hin alþjóðlegu Rosa Barba Landscape Prize. Verðlaunin fékk fyrirtækið fyrir hönnun á tröppustíg upp á Saxhól í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Verðlaunin, sem eru einskonar Oscars verðlaun í landslags-arkitektúr, voru veitt 28. september á landslagasarkitektúrtvíæringnum í Barcelona. Til að kynna og fylgja eftir tilnefningunni voru þeir Jón Rafnar Benjamínsson og Þráinn Hauksson mættir til Barselóna þar sem þeir kynntu hönnun tröppustígsins og settu í samhengi við stóru myndina um hlýnun jarðar og bráðnun jöklanna.

Níu verkefni hvaðanæva úr heiminum voru tilnefnd, auk Saxhóls voru verkefni frá Kína, Frakklandi, Grikklandi, Ísrael, Ítalíu, Mexíkó og Sviss. Dómnefnd skipuð alþjóðlegum fulltrúum hafði þessi orð um styrkleika verkefnisins þegar úrslitin voru tilkynnt í tónlistarhöllinni í Barcelona: For an economic, poetic and graceful project that looks forward, optimisticly for humanity, the Rosa Barba Prize goes to Saxhóll Crater Stairway.

Rosa Barba verðlaunin eru án efa mesta viðurkenning sem íslenskir landslagsarkitektar hafa hlotið.

Verðlaunin eru veitt Landslagi ehf en eru jafnframt mikil viðurkenning fyrir íslenskan landslagsarkitektúr og frábær afmælisgjöf til Félags íslenskra landslagsarkitekta FÍLA á fjörtíu ára afmæli félagsins.

Það má með sanni segja að Saxhóll sé verðlaunahóll, en hönnun tröppustígsins hefur áður verið tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands, Menningarverðlauna DV, Nordic Architecture Fair Award og verið valið sem fulltrúi íslenskrar hönnunar á Design The Nordic Way í Stokkhólmi vorið 2018.

Á félagsfundi FÍLA kynntu þeir félagar, Jón Rafnar og Þráinn, umhverfi Saxhóls, bakgrunn verkefnisins og grunnhugmyndina á bak við hönnunina. Saxhóll er vinsæll viðkomu- og útsýnisstaður yst á Snæfellsnesi í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Saxhóll er nálægt þjóðveginum og aðgengilegur. Það var því mikil nauðsyn að grípa til aðgerða og bæta aðkomuleið upp hólinn. Með sívaxandi fjölda gesta hafði myndast ákveðið spor upp hólinn og var tekið að skríða til, breikka og aflagast. Laust yfirborðið var jafnframt óþægilegt og hættulegt yfirferðar.

Hönnun stígsins er einfalt mannvirki, byggt úr svörtu stáli sem ryðgaði flótlega og samlagaðist litbrigðum hólsins. Tröppueiningarnar voru lagðar eftir sárinu sem komið var í hólinn og er settur saman úr tveimur bogum sem mætast á hvíldarpalli á miðri leið. Stígurinn er 160 metra langur og 1,5 metra breiður sem nægir til fólk geti mæst.  Hliðar stigans eru úr stífum stálplötum sem skorðast niður í gjallið. Einingarnar mynda nokkurs konar hálsfesti á hólinn og voru festar saman í eina samfellu og engra annarra undirstaða var þörf.

Reynslan af tröppustígnum er sú að gestir halda sig alfarið á sporinu og hættan á myndun nýrra leiða virðist úr sögunni.

Verkið er unnið fyrir Umhverfisstofnun og verktakafyrirtækið Kvistfell annaðist framkvæmd tröppustígsins. Verðlaunin eru hvatning til hönnuða og framkvæmdaaðila um faglega uppbyggingu á ferðamannastöðum.  Til hamingju Landslag.