FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Kársnes – Alþjóðleg samkeppni

Alþjóðlegri samkeppni, Nordic Built Cities Challenge, um áskoranir á sex þéttbýlissvæðum á Norðurlöndum er hleypt af stokkunum í dag. Kársnes í Kópavogi er eitt af svæðunum sem valin voru til þátttöku í keppninni. Þar er viðfangsefnið að bæta tengingar milli þróunarsvæðisins og annarra hluta höfuðborgarsvæðisins og auka þannig sjálfbærni byggðarinnar. Með bættum tengingum við áhugaverða staði sem eru skammt undan er hægt að skapa tækifæri bæði fyrir íbúa á Kársnesi og á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Auk Kársness voru valin til þátttöku Sege Park í Malmö, Tryggve Lies Plass í Osló, Hans Tavsens Park og Korsgade í Kaupmannahöfn, Runavík í Færeyjum og Kera iðnaðarhverfið í Espoo í Finnlandi. Áskoranir á svæðunum eru af ýmsum toga, frá aðlögun að loftslagsbreytingum til vistvænna samgangna og endurnýtingar efnis úr bæjarrýminu, en eiga það sameiginlegt að vera mikilvægar  á Norðurlöndunum og á heimsvísu.

Keppnirnar á svæðunum sex eru alþjóðlegar og öllum opnar og hver þátttakandi getur tekið þátt í fleiri en einni keppni.

Skipuð hefur verið dómnefnd á hverjum stað. Íslensku dómnefndina skipa Guðný Björk Eydal, Hrafnkell Proppé, Karl Benediktsson, Þór Sigfússon og Þóra Kjarval.

Dómnefndin velur allt að fjórar tillögur úr fyrra þrepi til þátttöku í seinna þrepi. Höfundar tillagnanna sem valdar eru í fyrra þrepi fá 300.000 norskar krónur, andvirði um 4,5 milljóna íslenskra króna til að vinna tillögur sínar áfram. Að loknu seinna þrepi er ein tillaga valin og hún verðlaunuð með 250.000 norskum krónum, andvirði tæpra 3,8 milljóna króna .

Nordic Innovation hyggst einnig verðlauna tillögurnar sem valdar eru í öllum keppnunum og hefur til þess 1,2 milljónir norskra króna, andvirði rúmlega 18 milljóna króna.

Nánari upplýsingar og samkeppnislýsingar fyrir svæðin sex er að finna á heimasíðu Nordic Built Cities Challenge, nordicbuiltcities.org/thechallenge/

Nánari upplýsingar um Kársnesið er  að finna á vef Kópavogsbæjar

Skilafrestur tillagna er 17. desember 2015.