Heiðursfélagi FÍLA, Reynir Vilhjálmsson er látinn
Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt lést á líknardeild Landakotsspítala í gær, sunnudaginn 7. júlí, eftir langvinn veikindi. Var hann 89 ára gamall.
Reynir var fæddur í Reykjavík 7. ágúst 1934 og ólst þar upp fram á unglingsár. Hann fór til starfa hjá frændfólki í Noregi aðeins 15 ára að aldri og kynntist þar garðyrkju.
Hann lauk námi við Garðyrkjuskólann á Reykjum 1953 og framhaldsnámi frá Det Kgl. Danske Haveselskabs Anlægsgartnerskole árið 1955. Útskrifaðist síðan sem landslagsarkitekt frá Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn 1961.
Reynir starfaði í Danmörku að loknu námi en flutti til Íslands 1963 og stofnaði teiknistofuna Höfða með Stefáni Jónssyni arkitekt og fleirum til að vinna að fyrsta aðalskipulagi Reykjavíkur. Samhliða hóf hann rekstur teiknistofu í eigin nafni og ruddi braut fyrir lítt mótaða nýja starfsgrein.
Á síðasta ári fögnuðu starfsfélagar Reynis 60 ára samfelldum teiknistofurekstri byggðum á hans grunni, sem fyrstu árin í eigin nafni, síðar Landslagsarkitektar Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson frá 1989 og loks sem Landslag ehf. frá árinu 1999.
Reynir var afkastamikill á ferli sínum og meðal hans þekktustu verka eru skipulag Neðra-Breiðholts og Árbæjarhverfis, umhverfi Reykjalundar, Klambratún, skipulag Fákssvæðis, Skrúðgarðar á Húsavík og í Hveragerði, skipulag Laugardals og Elliðaárdals, lóð Þjóðarbókhlöðunnar, Græni trefillinn, skipulag á Þingvöllum og Snjóflóðavarnir á Siglufirði.
Reynir var einn stofnenda Félags íslenskra landslagsarkitekta 1978 og fyrsti formaður félagsins. Hann var virkur félagi og stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Reykjavíkur, söng með Karlakórnum Stefni, stundaði skíðaíþróttina með Val fram eftir aldri og hestmennsku í Fáki um langt árabil. Hann var einn af stofnendum íþróttafélagsins Fylkis.
Reynir var góður vatnslitamálari og bætti í þá iðju eftir starfslok. Hann hélt sýningu á Siglufirði 2019 þar sem viðfangsefnið var snjóflóðavarnargarðar þar í bæ og árið 2021 hélt hann sýningu í bókasafni Árbæjar undir heitinu Árbæjarlónið sem var. Reynir var félagi í Vatnslitafélagi Íslands.
Reynir hlaut fjölda viðurkenninga fyrir verk sín og ævistarf. Hann var heiðursfélagi Félags íslenskra landslagsarkitekta. Sjónþing var haldið um ævistarf Reynis í Gerðubergi árið 2004. Reynir var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2010 fyrir frumherjastörf við skipulag og mótun umhverfis sama ár og hann var sæmdur Heiðursverðlaunum garðyrkjunnar.
Þá hafa verk hans unnið til verðlauna á alþjóðavísu, m.a. voru snjóflóðavarnargarðarnir á Siglufirði tilnefndir árið 2003 til evrópskra verðlauna í landslagsarkitektúr, Barba Rosa-European Landscape Prize og hlutu garðarnir þar sérstaka viðurkenningu. Árið 2022 hlaut Reynir Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands fyrir ævistarf sitt.
Reynir var frumkvöðull á sviði landslagsarkitektúrs á Íslandi og hefur haft mikil áhrif á íslenskt borgar- og bæjarlandslag og skipulag sem notið verður um ókomna tíð.
Reynir var kvæntur Svanfríði Gunnlaugsdóttur sem lést 2004. Þau eignuðust þrjú börn, Höllu sem starfaði sem bókari, Valdimar skógfræðing og Steinunni garðyrkjufræðing. Barnabörnin eru sjö og barnabarnabörnin sjö. Eftirlifandi sambýliskona Reynis er Sigríður Jóhannsdóttir tækniteiknari.
Félag íslenskra landslagsarkitekta vottar ástvinum og aðstandendum innilega samúð.
Kveðja frá FÍLA
Reynir Vilhjálmsson heiðursfélagi Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) er látinn. Hann var einn fimm stofnfélaga FÍLA árið 1978 og fyrsti formaður félagsins. Hann var landslagsarkitekt nr. 2 hérlendis að loknu námi frá Kunstaka¬demiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn árið 1961, áður hafði Jón H. Björnsson útskrifast frá Bandaríkjunum árið 1951.
Reynir var fagmaður fram í fingurgóma, bar mjög mikla virðingu fyrir faginu, landinu, menningu, sögu og flóru. Hann skilaði framúrskarandi góðu lífsverki, verk hans eru víða í borg og bæjum, þéttbýli og dreifbýli, á Íslandi og í Danmörku. Reynir lagði alla tíð mikla áherslu á þverfaglegt samstarf við arkitekta, verkfræðinga og aðra sérfræðinga og ruddi brautina fyrir þá landslagsarkitekta sem á eftir komu. Hann átti svo sannarlega sinn þátt í því að kynna fagið og festa það í sessi hér á landi, hann var frumkvöðull í faginu á Íslandi. Honum var umhugað að tengja hið liðna, söguna við það sem verið var að hanna og framkvæma. Hleðslur eru m.a. áberandi höfundaeinkenni Reynis. Það er gaman að segja frá því að þegar hann starfaði á teiknistofu Agnete Musfelt og Eiriks Myginds að námi loknu í Danmörku var eitt af verkefnum hans að hanna litla frístundagarða (d. Kolonihave). Hringréttin heima á Íslandi varð hans fyrirmynd og í dag má sjá nokkrar grænar hringréttir samankomnar þar sem í stað þess að draga fé í dilka er ræktað grænmeti og ber til yndis og ánægju (Brøndby haveby).
Frá því að Reynir sneri heim til Íslands árið 1963 rak hann teiknistofu með öðrum allt þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2013. Fyrir sitt lífsstarf hlaut hann heiðursnafnbót og verðlaun víða og var vel að því kominn.
Félagsmaðurinn Reynir var vinur okkar allra í félaginu. Hann var óþreytandi að hvetja fólk til góðra verka og hann tók virkan þátt í starfi félagsins allt frá upphafi, sat í stjórnum og ýmsum nefndum. Hann mætti á flesta viðburði og yngri félagsmenn muna ekki félagsviðburð nema Reynir væri mættur og deildi af visku sinni og reynslu. Reynir var lærimeistari margra landslagsarkitekta og það hefur verið áberandi nú eftir að hann kvaddi hversu þakklátir allir eru honum fyrir góðvildina sem hann sýndi öðrum og örlætið þegar hann deildi úr viskubrunni sínum til okkar hinna. Hans létta lund er okkur minnisstæð, hann var góður vinur og verður sárt saknað meðal FÍLA-félaga.
Þú áttir söngva og sól í hjarta
er signdi og fágaði viljans stál.
Þeir þurftu ekki um kulda að kvarta,
er kynni höfðu af þinni sál.
(Grétar Fells)
Kæra Sigríður, Halla, Valdimar og Steinunn, við vottum ykkur dýpstu samúð, megi ljúfar minningar um góðan mann sefa sárustu sorgina.