FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Afmælisbarn dagsins, Einar Á.E.Sæmundsen

Sjáið Einar. Hann á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.

Einar útskrifaðist með MLA gráðu í landslagsarkitektúr frá Háskólanum í Minnseota (Universty of Minnesota) árið 2000 en áður hafði hann lokið B.Sc í landfræði frá Háskóla Íslands.

Einar hefur unnið í þjóðgarðinum á Þingvöllum frá útskrift fyrst sem fræðslufulltrúi og vann fyrstu að mörgum verkefnum tengdum uppbyggingu fræðslu og móttöku gesta fyrir utan ýmis sérverkefni.  Eftir 2010 þróaðist starfið meira og við bættust ýmiskonar framkvæmdareftirlit, samskipti við verktaka og hönnuði vegna fjölmargra verkefna samhliða fjölgun ferðamanna.

Í upphafi var Einar að eigin sögn alltaf með samviskubit yfir því að vinna ekki á stofu.  Eitt sinn nefndi hann þetta við einn af prófessorum sínum við deildina í Minnesota sem sagði honum að hafa ekki áhyggjur þar sem hann væri á réttum stað.  Í þjóðgörðum Bandaríkjanna varð fagið landslagsarkitektúr til meðal annars og þróaðist.  Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna er í dag mjög stór vinnustaður fyrir landslagsarkitekta. Þetta róaði Einar og í dag er hann „samviskubitlausi“ þjóðgarðsvörðurinn og framkvæmdarstjóri Þingvallanefndar.

Í tilefni dagsins var Einar spurður spjörunum úr.

  • Skemmtilegustu verkefnin? Í þjóðgarðinum hef ég unnið að mjög mörgum skemmtilegum og krefjandi verkefnum frá litlum einföldum hönnunar og framkvæmdar verkefnum yfir í verkefni tengd sýningarhönnun, skiltagerð og útgáfu.  Ég hef haft mjög gaman af vinnu í kringum heimsminjar hvort sem er skráningu Þingvalla á heimsminjaskrá eða samstarfi við erlenda heimsminjastaði.  Á síðustu misserum hefur uppbyggingin á Haki verið mjög eftirminnileg og krefjandi.  Þar hefur verið mikið samstarf við frábæra landslagsarkitekta, hönnuði og arkitekta sem endaði í sumar með opnun 1000 fm gestastofu á Haki með flottri aðstöðu fyrir þjóðgarðinn..
  • Hvaða mat getur þú alls ekki borðað? Grænar baunir.  Ég fríka út ef ég sé græna baun á diskinum hjá mér.  Er með andlegt bráðaofnæmi fyrir þeim.
  • Uppáhaldsárstíð? Allt árið er ein samfelld uppáhalds árstíð. Vetur sumar vor og haust.  Þó er tímabilið frá mars til maí alltaf spennandi þar sem lífið er að vakna og daginn tekinn að lengja.
  • Falin perla hönnuð af landslagsarkitekt, veist þú um svoleiðis? Fyrir íslenska landslagsarkitekta er almenningsgarðakerfi Minneapolis falinn gimsteinn.  Það er þó ekki falið fyrir íbúum Minneapolis enda gríðarmikið notað en þetta er ótrúlega flott kerfi samtengdra grænna svæða umhverfis Minneapolis.  Hannað á sama tíma og Central Park í New York.  Hér heima er það líklega garður foreldra minna hannað af karli föður mínum. Hlýr og notalegur garður með góða orku sem er umvafinn ótrúlega mörgum tegundum plantna á litlu svæði.
  • Ef það yrði gerð mynd um ævi þína, hver myndi að leika þig? Ég myndi vilja að George Clooney léki mig.  Það væri skemmtilegt en kannski langsótt.
  • Fallegasti staður á landinu? Það eru margir staðir sem eru jafn fallegir og Þingvellir.
  • Uppáhalds tónlistarmaður? Margir tilkallaðir en ég græt ennþá Prince.
  • Ef þú mættir ráða öllu, hvaða verkefni yrði ráðist í næst? Það er byggja við pizzaofninn minn.

 

Þetta var Einar. Hann á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.Verið eins og Einar.