FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Hugmyndasamkeppni um framtíð Suðurnesjabæjar

Suðurnesjabær er yngsta sveitarfélag landsins en það varð til við sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs þann 10. júní árið 2018 í kjölfar íbúakosninga árið 2017. Íbúafjöldi í hinu sameinaða sveitarfélagi var 3.374 þann 1. janúar 2018 og er því sautjánda fjölmennasta sveitarfélag landsins og annað fjölmennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum. Tilgangurinn með sameiningunni var að skapa nýja öfluga stjórnsýslueiningu sem er í stakk búin til að takast á við skylduverkefni sem lögð eru á íslensk sveitarfélög og efla samlegð milli byggðalaganna tveggja Sandgerðis og Garðs.

Framtíð hins nýja sameinaða sveitarfélags er óskrifað blað. Með sameiningu sveitarfélaganna afmáðust skil þeirra og samfara því riðluðust forsendur þeirrar framtíðarsýnar sem sveitarfélögin höfðu áður. Mótun framtíðarsýnar til grundvallar nýju aðalskipulagi hins sameinaða sveitarfélags er eitt mikilvægasta verkefnið sem það stendur frammi fyrir. Þar mæta bæjaryfirvöld óbundin til leiks og er eindreginn vilji þeirra að fara nýjar og óhefðbundnar leiðir í þeirri vegferð. Hugmyndasamkeppni þessi er liður í því og er henni ætlað að ná fram heildstæðri og skýrri framtíðarsýn.

Samsetning teymis

Hugmyndasamkeppnin er opin öllum en er þó fyrst og fremst hugsuð fyrir þverfagleg teymi fagfólks í arkitektúr, skipulagi og á öðrum fag- og fræðasviðum auk aðila sem hafa áhugaverðan bakgrunn eða færni sem á erindi í tillögur um framtíð nýs sveitarfélags.

Hlekkur á vef hugmyndasamkeppni um nýtt skipulag Suðurnesjabæjar ásamt keppnislýsingu

https://www.sudurnesjabaer.is/is/hugmyndasamkeppni