FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Söguágrip

Landslagsarkitektúr er ekki ýkja gömul starfsgrein hér á landi. Jón H. Björnsson hóf störf 1953 og Reynir Vilhjálmsson 10 árum síðar. Á þessum árum var umhverfismenning okkar Íslendinga nokkuð frumstæð og lóðir við byggingar oft á tíðum afgangsstærð sem átti að koma “svona af sjálfu sér”. Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÌLA, var stofnað í febrúar árið 1978. Stofnefndur voru 5 talsins sem nægði til að mynda starfhæfa stjórn. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Reynir Vilhjálmsson formaður, Auður Sveinsdóttir og Einar E. Sæmundsen meðstjórnendur. Jón H. Björnsson og Reynir Helgason voru kosnir endurskoðendur þannig að allir félagsmenn gegndu virðingastöðum frá upphafi enda var mæting ávallt 100% og hver stjórnarfundur jafnframt félagsfundur.

Á stofnfundi félagsins var tekin sú djarfa ákörðun að nota starfsheitið landslagsarkitekt. Var það gert að undangenginni mikilli umræðu og að höfðu samráði við málfarssérfræðinga og fleiri málsmetandi menn. Réð þar mestu að heitið er alþjóðlegt og lýsandi fyrir starfsvettvanginn. Flestir íslensku landslagsarkitektarnir eru menntaðir á landbúnaðarháskólum en nokkrir hafa lokið menntun sinni við arkitektaskóla. Grunnmenntun landslagsarkitekta byggist á þekkingu á gróðri og náttúrufari, arkitektúr, skipulagsfræðum og garðbyggingartækni

Stofnfundur FÍLA, febrúar 1978

Við Íslendingar getum þakkað frumherjum landsins í garðyrkju og skógrækt fyrir þá miklu reynslu og þekkingu sem áunnist hefur í ræktun og við nú byggjum á. Án þeirra starfs, sem hófst fyrir um það bil einni öld, værum við nú mun skemmra á veg komin

Það er metnaður okkar landslagsarkitekta að byggja upp lífrænt og fagurt umhverfi sem þjónar vel tilgangi sínum. Með notkun gróðurs er settur í gang spennandi þróunarferill sem ekki er alveg útreiknanlegur og gerir alla að þáttakendum. Þar koma jafnt til landslagsarkitektar, garðyrkjumenn og notendur. Árstíðarbreytingar og duttlungar í veðurfari koma einnig við sögu. Allir vita að hinar ýmsu starfsstéttir eru ekki einslitur hópur og á það ekki síður við um landslagsarkitekta en aðrar starfsstéttir. Menn tileinka sér gjarnan mismunandi þekkingu eftir áhugasviði hvers og eins, mismunandi áherslur geta verið í hinum ýmsu skólum o.s.frv. Síðan tekur starfið við með fjölbreytilegum viðfangsefnum sem þroska og móta hvern einstakling enn frekar

Í stærri skipulags- og byggingarverkefnum eru gerðar kröfur um að myndaðir séu vinnuhópar um verkefnið þar sem lögð er áhersla á samvinnu fagfólks á breiðum grundvelli allt eftir eðli verksins. Að mínu mati skilar slík samvinna besta árangrinum og byggir upp þverfaglega þekkingu og virðingu fyrir öðrum starfsgreinum.

Landslagsarkitektar vinna á mjög breiðu sviði að fjölþættum skipulags- og umhverfismálum. Verkefnin geta verið að skipuleggja einstakar lóðir, skipulag hverfa og viðameiri skipulagsverkefni. Landslagsarkitektar starfa einnig að náttúruverndarmálum og varðveislu menningarminja. FÌLA sem er fyrst og fremst fagfélag hefur alla tíð starfað með miklum blóma.

Höfundur: Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt (reynir@landslag.is)
Birtist fyrst (hér örlítið stytt): Arkitektúr, Verktækni og Skipulag, 4. tbl. 19. árg. 1998