Kvennaverkfallið 2025: Auður Sveinsdóttir – frumkvöðull og fyrirmynd
Í tilefni af kvennaverkfallinu birtum við hér innslag um Auði Sveinsdóttur, fyrsta kvenlandslagsarkitekt landsins.
Auður er einn af fimm stofnfélögum Félags íslenskra landslagsarkitekta og hefur frá upphafi unnið af dugnaði og metnaði að því að auka veg og virðingu félagsins og víða rutt braut í faglegri nálgun. Hún hefur í gegnum tíðina gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, hún var formaður þess á árunum 1983-1985 og var gerð heiðurfélagi 2018.
Á áttunda áratugnum sinnti Auður kennslu á Garðyrkjuskóla ríkisins og gaf út mikilvægt kennsluefni á sviði skrúðgarðyrkju sem nýst hefur um áratugaskeið. Hún hefur átt frumkvæði að mörgum málum, setið í ótal nefndum og staðið að undirbúningi ráðstefna þar sem lögð var áhersla á fagið og þátttöku landslagsarkitekta. Auður hefur verið virk í norrænu samstarfi og kynnt FÍLA og íslenskan landslagsarkitektúr víða á þeim vettvangi. Hún hefur verið mjög ötul í að kynna og fá Evrópska Landslagssáttmálann samþykktan hér á Íslandi.
Framan af beitti Auður sér mikið fyrir mikilvægi leiksvæða og að ekki mætti undanskilja slík svæði í borgarumhverfinu.Hún var framfarasinnuð um margt er snertir menningararf okkar, staðaranda og á verndun sögufrægra garða á Íslandi. Náttúruvernd hefur jafnframt verið ríkur þáttur í huga Auðar og stafaði hún í nær áratug sem formaður Landverndar í lok síðustu aldar þar sem hún barðist fyrir fjölmörgum málefnum þess tíma t.d. „að álver yrðu ekki reist og hætt yrði við öll slík áform“.
Á árunum 1992-94 sat Auður nokkur skipti á Alþingi sem varaþingmaður Reykvíkinga fyrir Alþýðubandagið, þar sem hún og beitti sér m.a. fyrir aukinni náttúrufræðikennslu í grunnskólum. Hún var ötul í undirbúningi fornáms í landslagsarkitektúr á Hvanneyri í kringum síðustu aldamót og starfaði þar síðan; fyrst sem lektor og seinna sem dósent á umhverfisskipulagsbraut. Á síðustu árum hefur Auður látið sér sérstaklega umhugað um greiningu landslags; þ.e.a.s mögulegum aðferðum sem nýta má sem verkfæri til að draga fram sérkenni staða og efla staðarvitund til styrktar atvinnu- og byggðaþróun.
Frá því Auður lauk námi 1973, hefur hún sinnt umfangsmiklum og fjölþættum störfum sem landslagsarkitekt; innan hefðbundins teiknisstofureksturs; sem varaþingmaður; sem formaður – og stjórnarmaður ýmissa félagssamtaka; sem dómnefndarmaður; sem fyrirlesari; sem pistla-og ritstjóri; sem náttúruverndar – og umhverfissinni, en ekki síst sem kennari og leiðbeinandi við Garðyrkjuskóla ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er því vel í anda brautryðjandans og frumkvöðulsins Auði Sveindóttur sem Félag íslenskra landslagsarkitekta sendir öllum konum baráttukveðjur í tilefni dagsins.






