FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

staðardagskrá 21 

Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina. Þessi áætlun á að vera nokkurs konar forskrift að sjálfbærri þróun, þ.e.a.s. lýsing á því hvernig samfélagið ætlar að fara að því að tryggja komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði á Jörðinni. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Eitt aðalatriðið í hugmyndafræðinni sem að baki liggur, er að umhverfismál verði aldrei slitin úr samhengi við önnur mál, heldur beri að skoða áhrif mannsins á umhverfi sitt í víðu samhengi. Ákvörðunin um gerð Staðardagskrár 21 var tekin á heimráðstefnunni í Ríó vorið 1992. Eins og fram kemur í 28. kafla yfirlýsingarinnar frá Ríó er Staðardagskrá 21 ekki einkamál stjórnvalda á hverjum stað. Staðardagskrá 21 er ekki aðeins áætlun sveitarstjórnarinnar, heldur samfélagsins í heild. Þess vegna er mikilvægt að sem flestir hópar samfélagsins hjálpist að við gerð hennar. Þátttaka mismunandi hópa hlýtur auk heldur að fara eftir aðstæðum á hverjum stað. Vinnu við gerð Staðardagskrár 21 lýkur aldrei, þó að stórum áfanga sé náð þegar lokið er við fyrstu útgáfu og afgreiðslu hennar í sveitarstjórn. Þá er eftir að hrinda áætluninni í framkvæmd auk þess sem Staðardagskráin þarf að vera í stöðugri endurskoðun í takt við breytta tíma og nýjar áherslur. Staðardagskrá 21 er með öðrum orðum ekki bara skjal, og ekki bara umhverfisáætlun, heldur fyrst og fremst ferli (umhverfisvefurinn)
Enska: Local agenda 21