FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

landslagsmat

Mat á landslagi er aðferð sem byggir á því að meta landslagsfegurð og landslagsgæði. Oft á tíðum er matið gert á grundvelli flokkunar á landslagi eins og kom fram hér að framan. Mismunandi aðferðir hafa verið notaðar við þetta mat: A. Heimspekilegt mat tengt tilfinningum athugandans og umhverfisskynjun fremur en breytum í landslagi. Oft á tíðum er ekki gerður greinarmunur á eðlisrænum og mannvistarlegum landslagsþáttum. Því er aðferðin mjög persónuleg og því ólíklegt að tveir athugendur komist að sömu niðurstöðu. B. Mat byggt á eðlisrænum og sjónrænum þáttum. Athugandinn metur landið út frá eðlisrænum og sjónrænum þáttum og skráir niður fyrirbrigði sem hann gefur töluleg gildi út frá faglegu mati. Gildin eru síðan lögð saman til þess að fá samsvörun við hlutlægt mat. Auðvelt er að tengja niðurstöðurnar og forsendurnar og er því aðferðin gagnsæ. C. Gildismat almennings. Þessi aðferð er sett fram sem mótvægi við mat fagmanna. Úrtakshópur er fenginn til að meta landslag á vettvangi eða með aðstoð ljósmynda og því gefið töluleg gildi eða einkunnir. D. Mat byggt á ályktunum. Þessi aðferð byggir á A og B, þannig að notaðar eru niðurstöður úr könnunum á gildismati almennings og athugað með fylgni við ákveðna eðlisræna þætti. Niðurstöðurnar eru síðan notaðar til að meta svipuð svæði. Til þess að geta notað þessa aðferð þá þarf að liggja fyrir víðtæk könnun á gildismati almennings (yþl). 
Norska: landskapsvurdering