Afmælisbarn dagsins Sif Hjaltdal Pálsdóttir
Sjáið Sif. Hún á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta.
Sif lærði fagið í Konunglega Landbúnaðarháskólanum og útskrifaðist frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2007. Sif hefur starfað á Landslagi ehf. frá árinu 2008 og komið að hinum ýmsum verkefnum. Öll finnst henni þau spennandi – hver á sinn hátt – en að vinna með þrívíddarlíkön er einstaklega spennandi.
Í tilefni dagsins var Sif spurð spjörunum úr.
- Uppáhalds íslenski hönnuðurinn? Við erum vissulega rík af mörgum flottum hönnuðum úr allskonar áttum, meira að segja nokkrir hönnuðir í fjölskyldunni (svona eins og hjá mörgum Íslendingum), t.d. systir mín undir nafninu ByBibi – þar sem fagurfræðin og notagildi vega mest í vöruhönnuninni hennar. Hinsvegar var fyrsti hönnuðurinn sem átti hug minn og hjarta Sigrún Eldjárn. Ég gat horft endalaust á teikningarnar hennar sem barn.. þessir strigaskór.
- Uppáhalds plantan? Sóley – langbesta fyrirsætan í myndatökum og svo sér maður hana langa leið.
- Þriðjudagsdrykkurinn? Vatn, kaffi og meira vatn.. og svo smá kaffi í viðbót og hellings vatn.
- Hvað dettur þér fyrst í hug þegar þú heyrir orðið „lauf“? Vatnslitir
- Fallegasti staður á landinu? Það má vel vera að ég sé hlutdræg, en fallegasti staðurinn er án efa Heimaey – sérstaklega útsýnið frá stofuglugga pabba og mömmu.
- Bókin á náttborðinu? Skáldsagan Framúrskarandi vinkona eftir Elena Ferrante. Bókin sem er annars búin að liggja lengi á náttborðinu mínu er bók sem frænka mín og landslagsarkitektinn Vibeke Nelleman skrifaði, ásamt fleirum; ‘Landscape Analysis – investigating the potentials of Space and place’. Mæli alveg með að kíkja í þá bók.
Þetta var Sif. Hún á afmæli eins og Félag íslenskra landslagsarkitekta. Verið eins og Sif.