Aðalfundur FÍLA 2025
Þriðjudaginn síðastliðinn var 47. aðalfundur FÍLA haldinn í salnum Hljóðbergi í Hannesarholti. Alls mættu 19 félagsmenn. Nýjar lagabreytingar voru samþykktar sem veita stjórn FÍLA heimild til þess að samþykkja umsóknir þeirra í félagið, sem ekki eru útskrifaðir landslagsarkitektar, en hafa útskrifast með sambærilega framhaldsmenntun, t.d. borgarhönnuði. Einnig voru samþykktar lagabreytingar sem gefa stjórn FÍLA heimild til að tilnefna nemenda sem áheyrnarfulltrúa í stjórn í von um að auka enn á tengsl félagsins við nemendur. Að lokum urðu breytingar á lögum sem varða þá félagsmenn sem undanþegnir eru félagsgjaldi. Góður matur, fjörugar umræður og góð stemning einkenndu fundinn. Úr stjórn gengu Ómar Ingþórsson og Daníel Jakobsson og eru þeim þökkuð vel unnin störf. Ný í stjórn voru kosin Þórhildur Þórhallsdóttir í stöðu formanns, og Hrönn Valdimarsdóttir í stöðu gjaldkera, en fyrir í stjórn voru Guðrún Birna Sigmarsdóttir, Sif Hjaltdal Pálsdóttir og Svanhildur Gunnlaugsdóttir. Fundarstjóri var Inga Rut Gylfadóttir.


