FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Sýningin URBAN SPACE / BORGARLANDSLAG opnar í Spark

Á sýningunni verða sýnd fimmtíu kort af höfuðborgum Evrópu sem arkitektinn Paolo Gianfrancesco hefur útfært. Kortin eru byggð á gögnum úr svokölluðu Open Street Map. Open Street Map (OSM) er opið samstarfsverkefni á netinu sem á uppruna sinn í hugmynd um að útbúa lifandi kort af heiminum sem notandinn getur breytt sjálfur. Sýningin opnar 26. júní og stendur til 26. september 2014. 

Verkefnið er öllum opið og Paolo hefur um árabil verið virkur þáttakandi í því. Í þeirri röð borgarkorta sem eru sýnd eru allar höfuðborgir Evrópu, skipt niður í höfuðborgir ríkja sem njóta fullrar viðurkenningar, viðurkenningar að hluta, og ríkja sem ekki njóta sjálfstæðis. 

Markmiðið er að sýna hefðbundna kortagerð í nýju ljósi með því að einblína á samskiptaleiðir borga. Hver borg hefur sinn eigin takt, sitt eigið jafnvægi, ósýnilegt samspil tómarúms og bygginga. Gögnin að baki kortunum eru einfölduð til að sýna kjarna borgarumhverfisins. Margar höfuðborganna fá form sitt frá náttúrulegum fyrirbærum eins og vatnsföllum eða fjöllum, eða strandlengju; aðrar eru mótaðar af hernaðarlegum forsendum. 

Kortin sýna raunverulega stöðu kortagerðarinnar. Líkt og hefðbundin kort setja þau fram sýn á raunveruleikann, en ekki raunveruleikann sjálfan. Borgirnar eru í stöðugri þróun, líkt og kortin á netinu er borgarveruleikinn háður breytingum af manna völdum á hverjum degi. 

Borgarkortin eru til sölu í stærðinni 70 x 100 cm, litavalið fer eftir Pantone litakerfinu og raðað eftir mannfjölda. 

Nánari upplýsingar á vefsíðu Spark Design Space.