FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

sjálfbær þróun

Hugtakið sjálfbær þróun var fyrst notað í Brundtlandskýrslunni frá árinu 1987. Þar er hugtakið skilgreint sem: “Þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að stefna í voða möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum.” Á Ríó-ráðstefnunni 1992 voru undirritaðir mikilvægir samningar undir merkjum sjálfbærrar þróunar, en í því hugtaki fólst stefnubreyting frá hreinni umhverfisverndarstefnu, sem mönnum fannst hafa náð takmörkuðum árangri. Í hugmyndarfræði sjálfbærrar þróunar er ástand umhverfisins skoðað í samhengi við efnahagslega og félagslega þróun og leitað leiða til að auka auð og velferð mannkyns án þess að það skaði grunngæði jarðar. Stjórnvaldsaðgerðir duga samkvæmt þessu ekki einar og sér til þess að taka á umhverfisvandanum, heldru er virk þátttaka almennings og atvinnulífsins forsenda þess að árangur náist. Leið þjóða heims til sjálfbærrar þróunar er mismunandi, meðal annars eftir efnahags- og félagslegum aðstæðum, en takmarkið er að fullnægja eðlilegum þörfum fólks til lífsgæða á rányrkju sem kæmi niður á komandi kynslóðum. Sjálfbær þróun þarf ekki að hafa í för með sér stöðnun, til dæmis í tækniþróun, eða öfgakennda verndunarstefnu í umhverfismálum. Máltæki frá Kenýa lýsir inntaki sjálfbærrar þróunar nokkuð vel: “Við fengum jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar, við höfum hana að láni frá börnunum okkar.” (umhverfisvefurinn) 
Enska: sustainable development
Norska: Bærekraftig utvikling