FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Forval vegna hugmyndaleitar um skipulag í Gufunesi – Ný byggð við sjávarsíðuna

Fasteignaþróunarfélagið Spilda ehf (útbjóðandi) í samvinnu við Arkitektafélag Íslands (AÍ) efnir til forvals um þverfagleg teymi til að taka þátt í hugmyndaleit um framtíðaruppbyggingu og skipulag átta byggingarreita/lóða, við sjávarsíðuna í gildandi deiliskipulagi um Gufunes frá árinu 2019.   

Útbjóðandi festi kaup á tíu sjávarlóðum á Gufunesi árið 2020 og hefur nú þegar fengið samþykkta   deiliskipulagsbreytingu á tveimur lóðum, Jöfursbás 5 og 7. Uppbygging hefst á þessum lóðum nú á vormánuðum.  Þá standa eftir átta sjávarlóðir félagsins sem falla undir forval þetta.

Með forvali þessu um nýja byggð við sjávarsíðu í Gufuness er markmiðið að skoða hvernig hægt sé að nýta stórskorið landsvæðið sem best með tilliti til einstakra landgæða, tryggja sjónása frá byggingum og opnum svæðum að náttúru og skapa góðar íbúðir sem auka lífsgæði íbúa. Óskað er eftir að heildarmynd sé á uppbyggingu lóðanna með góðri  tengingu við göngu og hjólastígakerfi Reykjavíkurborgar.   Svæðið sem hugmyndaleitin nær til stendur annars vegar í horni á sjávarkambi (A svæði) og hins vegar á plani og tanga austan við kvikmyndaver GN Studios (C svæði).   Nýtt eignarhald á lóðunum gefur tækifæri til að heildstæð uppbyggingarstefna sé í forgrunni og  væntir útbjóðandi þess að niðurstöður úr hugmyndaleitinni sé undanfari deiliskipulagsbreytinga á því svæði sem um ræðir.

Tímalína:

  • 29. mars – Forval fyrir hugmyndaleit auglýst
  • 19. apríl – Skil á forvalsgögnum
  • 28. apríl – Niðurstaða forval/lýsing hugmyndaleitar send til keppenda
  • 14. júní – Þátttakendur skila inn tillögum sínum
  • 29. júní – Niðurstaða dómnefndar liggur fyrir

Forvals- og dómnefnd:

  • Anna Sigríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri útbjóðanda (formaður)
  • Björn Ingi Edvardsson, landslagsarkitekt, FÍLA
  • Gísli Reynisson, verkfræðingur frá útbjóðanda
  • Karl Kvaran, arkitekt, FAÍ
  • Kristín Brynja Gunnarsdóttir, arkitekt frá útbjóðanda

Trúnaðarmaður samkeppninnar er Helga Guðjónsdóttir, netfang: trunadarmadur@ai.is