FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Erlendar hönnunarstofur auglýsa eftir íslenskum samstarfsaðilum í alþjóðlega hönnunarsamkeppni

12. mars 2021

Samkeppnin sem um ræðir er fyrir þróunaráætlun svæðisins umhverfis Keflavíkurflugvöll og er það fyrirtækið Kadeco sem heldur utan um samkeppnina, sem auglýst var á útboðsvef evrópska efnahagssvæðisins í janúar.

Markmið samkeppninar er að fá fram ramma utan um þróun byggðarinnar umhverfis flugvöllinn til langrar framtíðar. Henni er einnig ætlað að vera samráðsvettvangur við íbúa og atvinnulíf með það að markmiði að efla byggðina, greina og fullnýta tækifæri svæðisins.

Nú vilja erlend hönnunarteymi, sem sýnt hafa verkefninu áhuga, komast í samband við íslenskar hönnunar- og arkitektastofur og Kadeco auglýsir því eftir að safna saman tengiliðaupplýsingum frá áhugasömum innlendum aðilum með það fyrir augum að koma á samstarfi milli ólíkra þátttakenda og tengja saman með einföldum hætti.

Hér er fylgiskjal til útfyllingar, frestur til að senda inn er miðvikudagurinn 17. mars. Allar upplýsingar er að finna í skjalinu.

Kadeco er samráðsvettvangur íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar og er meginmarkmið félagsins að hafa umsjón með þróun lands umhverfis Keflavíkurflugvöll. Í samkeppni um þróunaráætlun er lögð megináhersla á það svæði sem tengir byggðina við flugvöllinn og Reykjanesbrautina. Mikil áhersla er lögð á fólksmiðaða nálgun í takt við umhverfið og sjálfbæra þróun.