FÉLAG ÍSLENSKRA LANDSLAGSARKITEKTA

Niðurstöður úr samkeppni um útsýnispall á Bolafjalli

Þriðjudaginn 5. febrúar voru niðurstöður úr samkeppni um útsýnispall á Bolafjalli kynntar í sal bæjarstjórnar í Ráðhúsinu í Bolungarvík. Eftir fundinn var farið með hönnuði og fjölmiðlafólk í kynningarferð á Bolafjall.

Vinningstillagan reyndist koma frá teymi Landmótunar sf., Sei ehf. og Argos ehf. Verkfræðiráðgjöf veitti S Saga ehf.

Keppnin var haldin í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta og óskuðu 16 hönnunarteymi eftir því að taka þátt í samkeppninni og af þeim uppfylltu 15 skilyrði hönnunarteyma. Þrjú teymi voru dregin af handahófi í október og skiluðu þau inn tillögum að hönnun á útsýnispalli í desember.

Í áliti dómnefndar kemur fram að vinningstillagan sé látlaus en afar sterk hugmynd sem virðir umhverfið og ber það ekki ofurliði.

Tillagan uppfyllir markmið samkeppninnar um að gera útsýnisstaðinn á Bolafjalli að eftirsóknaverðum ferðamannastað á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað. Hönnun pallsins býr yfir eiginleikum bæði varðandi fagurfræði og staðsetningu til þess að pallurinn verði einstakur í sínum flokki. Hann fellur vel að umhverfinu og endurspeglar í hlutföllum og útfærslu mikilfengleika þess.

Dómnefndina skipuðu Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, og var hann formaður nefndarinnar, Ragnhildur Skarphéðinsdóttir, landslagsarkitekt MLI FÍLA, fh. FÍLA og Ulla Rolfsigne Pedersen, landslagsarkitekt FÍLA, fh. Verkís. Ritari dómnefndar var Hallgrímur Örn Arngrímsson, jarðverkfræðingur, verkefnisstjóri hjá Verkís.

Það er ljóst að útsýnispallur á Bolafjalli mun verða eitt af helstu kennileitum í ferðaþjónustu á Vestfjörðum og verður án efa einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Vestfjörðum og þótt víða væri leitað.

Farið var með vinningshafa og fréttamenn á snjóbíl björgunarsveitarinnar Ernis upp á Bolafjall eftir kynninguna og þar var ægifagurt vetrarveður.

Stjórn FÍLA óskar vinningshöfum innilega til hamingju.

Sjá nánar heimasíðu Bolungarvíkur: https://www.bolungarvik.is/frettir/vinningstillaga-um-utsynispall-a-bolafjalli